SAGA WOW CYCLOTHON

WOW Cyclothon er hugarfóstur tveggja ævintýramanna, Skúla Mogensen og Magnúsar Ragnarssonar, sem dreymdi um að gera eitthvað alveg einstakt og upplifa Ísland á skemmtilegan og heilbrigðan hátt. Þessir tveir eru ekki þekktir fyrir annað en að láta hlutina gerast og árið 2012 varð hugmynd þeirra að hjólreiðakeppni hringinn í kringum landið að veruleika.

Úr varð WOW Cyclothon hjólreiðakeppnin þar sem hjólað er í kringum Ísland með boðsveitarformi. Fjöldi þátttakenda hefur allt að því tvöfaldast á hverju ári og hafa nú þegar mörg þúsund manns tekist á við þessa áskorun.

Meira en hjólreiðakeppni

Þeir félagar Skúli og Magnús létu sér ekki nægja að hleypa af stað því sem er í dag stærsta hjólreiðakeppni landsins heldur er árleg áheitasöfnun tengd keppninni. Á hverju ári er gott málefni styrkt um þá upphæð sem keppendur sjálfir safna meðan á keppninni stendur. Nú þegar hefur tugum milljóna verið úthlutað í verðug málefni en meira um áheitaverkefni fyrri ára og nýjasta málefni WOW Cyclothon má finna með því að smella hér. 

2012

Fyrsta árið sem WOW Cyclothon fór fram voru það alls 52 hjólarar og 26 bílstjórar/liðsstjórar í 13 liðum sem lögðu af stað og kláruðu hringinn. Einungis var boðið upp á keppni í fjögurra manna liðum þar sem tveir bílstjórar/liðsstjórar eru með í för.

Þetta árið fór af stað hjólasöfnun Barnaheilla og flugfélagsins WOW air þar sem fólk gat komið og gefið gömul hjól. Safnað var fyrir Barnaheill í verkefni sem nefndist „Hreyfing og líkamlegt heilbrigði barna".

Söfnunin gekk vonum framar og u.þ.b. 250 börn fengu hjól en alls bárust tæplega 500 hjól í söfnunina. Sum hjólanna var ekki hægt að gefa en þau nýttust í varahluti.

Afhending hjólanna fór fram í gegnum mæðrastyrksnefndir, Fjölskylduhjálp Íslands á Suðurnesjum og Félagsþjónustu Hafnarfjarðar. Öll áheit á hjólaliðin í WOW Cyclothon keppninni þetta árið runnu til verkefnisins og alls söfnuðust 3,8 milljónir króna.

2013

Boðið var upp á skráningu á 10 manna liðum árið 2013 en þá mega allir hjólreiðamenn bæði hjóla og keyra liðsbíl.

Liðafjöldi tvöfaldaðist en 18 fjögurra manna lið og 7 tíu manna lið tóku áskoruninni þetta annað ár keppninnar. Þar af var fyrsta hreina kvennaliðið í A-flokki en mettími þeirra hefur haldið síðan.

Árið 2013 var aftur safnað fyrir Barnaheill og runnu yfir 4 m.kr. óskiptar til samtakanna. Aftur var hjólum safnað og söfnuðust 670 hjól í þetta skiptið.

2014

Árið 2014 var sögulegt ár fyrir WOW Cyclothon en þá var í fyrsta skipti boðið upp á einstaklingsflokk. Einnig var 2014 fyrsta árið sem Hjólakraftur tók þátt í kepninni en þau skráðu sig til leiks með það markmið að klára allra síðustu og unnu áheitakeppnina með glæsibrag. Lokasprettur A liðs Arnarins og Workforce A fer einnig á blað sem sá harðasti í sögu keppninnar en einungis munaði hjóllengd á liðunum í endamarki og fengu bæði lið sama lokatíma, 39 klst. og 12 mínútur, algjört met!

Þetta ár var safnað fyrir bæklunarskurðdeild Landsspítalans Háskólasjúkrahúss til kaupa á sérstökum C-boga og söfnuðust rúmar 15 milljónir sem dugðu fyrir tækinu og öðrum nauðsynlegum verkfærum að auki.

Met var slegið í fjölda keppenda en yfir 500 keppendur skráðu sig til leiks, þar af fimm í sólóflokk keppninnar. Aðeins þrír sólókeppendur luku þó keppni og það voru hetjurnar Sigurður og Þórður sem voru fyrstir einstaklinga til að klára hringinn á rétt rúmum 74 klukkustundum. Eiríkur Ingi fylgdi þeim í mark u.þ.b. tveimur tímum síðar.

2015

Enn eitt metið var slegið í fjölda þáttakenda árið 2015 þegar yfir 1.000 keppendur skráðu sig til keppni. Blönduð lið innan B-flokks fengu nú að keppa til verðlauna sín á milli og komið var á fót sérstökum flokki fyrir lið Hjólakrafts, en þau voru alls fjögur og ræstu þau degi fyrr en önnur lið og sóló keppendur.

Hörð keppni var milli liða í B flokk þetta ár en þar voru skráðir margir af bestu hjólurum landsins. Það var þó Örninn sem vann glæsilegan sigur í þessum flokki enda áttu þeir harma að hefna frá síðasta ári. Sigurvegarar A liða voru Eldfljótir með ERGO en þeir slógu út metið frá 2015 og kláruðu hringinn á 38 klst. og 43 mín.

Hlutfall kvenna hefur aldrei verið betra í keppninni og voru það valkyrjurnar í HFR Renault sem kláruðu fyrstar í B flokki kvenna á 42 klst. og 45 mín. og stöllur þeirra úr HFR Fjólum unnu A flokkinn eftir að hafa hjólað hringinn á 46 klst. og 7 mín. Alls tóku 23 lið þátt í B flokki blandaðra liða sem verður að teljast nokkuð gott. Team WorldClass kom fyrst í mark og kláraði hringinn á 40 klst. og 11 mín.

Keppendur söfnuðu áheitum til styrktar uppbyggingu batamiðstöðvar á Kleppi og söfnuðust yfir 21 milljón króna fyrir þetta þarfa verkefni.

2016

Yfir 1.000 keppendur í rúmlega 100 liðum tóku þátt í keppninni 2016. Eftir að hafa skráð sig til leiks þriðja árið í röð tókst Eiríki Inga Jóhannessyni að vinna keppnina í solo-flokki eftir harða baráttu við Ítalann Omar Di Felice. Eiríkur lauk keppni á 63 tímum og 52 mínútum. 

Sjö lið tóku þátt í A-flokki keppninnar og þeirra á meðal var súperliðið Park Inn by Radisson sem innihélt þrjá reynda íslenska hjólara og Tour de France kempuna George Hincapie. Hincapie kom upphaflega til Íslands til að styðja Hjólkraftsliðin í gegnum Hvalfjörðin en ákvað svo að taka þátt og þá var ekkert annað í stöðunni en að skella saman liði fyrir kappann. Liðið bar sigur úr býtum og kláraði keppnina á 39 tímum og 39 mínútum. Í B-flokk voru skráð 92 lið. Lið Olís HFR tók forystuna snemma í keppninni og hélt henni eftir það en liðið kláraði hringinn á tæplega 37 tímum. 

Hjólakraftsliðin mættu sterk til leiks þetta ár með 15 lið. Hvert lið saman stóð af 5-6 unglingum og 4 umsjónarmönnum. Liðin kláruðu keppnina með bros á vör eftir 64 tíma og 25 mínútur. 

Þetta ár söfnuðu þátttakendum áheitum til styrktar Hjólakraftsverkefninu og náðu að safna rétt tæpum 12 milljónum til að tryggja áframhaldandi vöxt og starfssemi félagsins sem vinnur að því að kynna hjólreiðaíþróttina fyrir börnum og unglingum sem ekki finna sig í hefðbundnum hópíþróttum.

2017

Fleiri keppendur en nokkru sinni fyrr voru skráðir í WOW Cyclothon árið 2017 eða yfir 1,300 manns í 144 liðum. Í fyrsta sinn í sögu WOW Cyclothon þurfti að stöðva lið sem dregist höfðu aftur úr en það var gert vegna stormviðvörunar á suðaustur horni landsins. Öllum liðum sem ekki komust framhjá því svæði sem stormurinn hafði áhrif á í tæka tíð var gert að hætta keppni en fengu þó sæti miðað við þá stöðu sem þau voru í þegar keppni var hætt.

Fjórir sóló-hjólarar voru skráði til leikst þetta ár og var það hinn kanadíski Peter Coljin sem bar sigur úr býtum eftir 67 tíma á hjólinu. Vegna veðurs og vinda þurfti að ræsa keppni einstaklinga og hjólakrafts frá Borgarnesi í stað Reykjavíkur í þetta sinn.

Í flokki A-liða var það lið Cannondale GÁP elite sem sigraði með tæplega tveggja tíma forskoti en keppnin var aðeins meira spennandi í flokki B-liða. CCP og Zwift unnu saman allan hringinn og náðu góðri forystu en á síðustu 30 kílómetrum keppninnar ákváðu liðin að keppa sín á milli og voru loka kílómetrarnir æsispennandi. Lið CCP náði mínútu forskoti á Zwift og komu í mark á 36 tímum og 13 mínútum sem er besti tími sem náðst hefur í keppninni.

Áheitum var safnað fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg þetta ár og söfnuðust yfir 20 milljónir. Björgunarsveitirnar komu að keppninni með fjölbreyttum hætti þetta ár en á Akureyri grilluðu björgunarsveitarliðar hamborgara ofan í keppendur og á Austurlandi hjálpuðu þeir keppnisstjórn að klukka lið úr keppninni vegna veðurs. 

Styrktaraðilar

Án styrktaraðila væri ekki viðburður, en WOW Cyclothon er með á sér að sjálfsögðu góða bakhjarla. Neðst á síðunni má sjá þá frábæru styrktaraðila sem gera okkur kleift að halda þennan magnaða viðburð.

Markmið keppninnar

Án þátttakenda verður ekki viðburður en við viljum fá sem flesta einstaklinga til að stíga út fyrir þægindarammann, upplifa einstakt ævintýri sem stuðlar að bættri heilsu og býður um leið upp á tækifæri til að skoða fallega landið okkar á ólýsanlega magnaðan hátt.

WOW Cyclothon snýst ennfremur um samvinnu, liðsheild og stuðning.

Aðstandendur WOW Cyclothon og keppendur setja markið hátt en í keppninni eru allir sigurvegarar.