Málefnið

 
Wow_cyclothon_2016_118.jpg

Keppendur í WOW Cyclothon safna áheitum fyrir ákveðið málefni ár hvert. Í gegnum tíðina hafa fjölmörg góð verkefni hlotið styrk í gegnum áheitasöfnun keppninnar og má þar t.d. nefna Hjólakraft, Landsspítalann og Slysavarnarfélagið Landsbjörg. 

Áheitum er safnað með SMS'um, SMS er sent í á ákveðið númer, sem má sjá hér að neðan. með áheitanúmeri þess liðs sem heitið er á. Það lið sem safnar flestum áheitum er svo heiðrað sérlega á lokahófi keppninnar.

901-5001  - 1000 kr
901-5002 – 2000 kr
901-5005 – 5000 kr
901-5010 – 10.000 kr

Einnig er hægt að leggja til hærri upphæðir með millifærslu. Mjög mikilvægt er að senda greiðslukvittun með e-maili og setja áheitanúmer í skýringu.

Kennitala: 540313-0590
Reiknings númer: 0701-26-055403
Email fyrir kvittun: wowcyclothon@wowcyclothon.is
Skýring: Áheitanúmer liðs

2019

Reykjadalur

Í ár hefur verið ákveðið að áheit sem safnast í WOW Cyclothoninu 2019 muni renna óskipt til Sumarbúðanna í Reykjadal.

Sumarbúðirnar í Reykjadal eru reknar af Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Árlega koma um 250 börn og ungmenni í dvöl, en dvalargestir eiga það allir sameiginlegt að eiga ekki völ á hefðbundinni sumardvöl vegna fötlunar. Markmið Reykjadals er að gefa þeim sem þurfa sérstaka þjónustu kost á að njóta þeirra upplifana og ævintýra sem slíkar dvalir fela í sér. Um leið er haft að markmiði að hver og einn njóti sín á sínum eigin forsendum í góðra vina hópi. Allt uppbyggingarstarf Reykjadals byggist á velvild almennings, fyrirtækja og félaga og hefur sú velvild skipt gríðarlegu máli fyrir starfsemina og gert Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra kleift að byggja upp aðstöðu sumarbúðanna og bæta þjónustuna ár frá ári. Áheit WOW Cyclothon verða mikil lyftistöng fyrir uppbyggingu Reykjadals, en áætlað er að nýta ágóða söfnunarinnar í mikla og þarfa viðbyggingu við sumarbúðirnar sem mun bæta aðstöðuna til muna.

 

thumbnail_jarðarber.jpg
36176754_1732901526803375_692873405615046656_n.jpg

2017 og 2018

Landsbjörg

Árið 2017 var ákveðið að veita áheit sem keppendur söfnuðu til Slysavarnafélagsins Landsbjargar en sjálfboðaliðar félagsins bera uppi leitar- og björgunarstarf í landinu, auk þess að sinna viðamiklum slysavörnum á landsvísu. Það sem færri vita er að hjól eru í vaxandi mæli notuð við björgunar- og leitarstarf Landsbjargar og það var því viðeigandi að einn stærsti hjólreiðaviðburður landsins styrki þetta verðuga starf. Árið 2018 renna áheitin aftur til Slysavarnarfélagsins og hlökkum við til að sjá hversu miklu verður safnað í ár.

Slysavarnafélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi. Á útkallslista félagsins eru um 4.200 karlar og konur um land allt sem eru reiðubúin til að leggja á sig mikla vinnu, oft við erfiðar aðstæður, alla daga ársins.
 

Alls söfnuðust 20.655.210 kr. árið 2017

2016

Hjólakraftur

Keppendur í WOW Cyclothon 2016 söfnuðu áheitum fyrir samtökin Hjólakraft. Samtökin voru stofnuð af Þorvaldi Daníelssyni til að hjálpa börnum og unglingum sem höfðu á einn eða annan hátt orðið undir í baráttunni við lífsstílssjúkdóma og ekki fundið sig í hópíþróttum. Hjólakraftur hefur sett sterkan svip á WOW Cyclothon frá árinu 2014 þegar fyrsta liðið frá samtökunum skráði sig til keppni. Árið 2015 kepptu fjögur lið undir þeirra nafni og árið 2016 voru þau 15. Fyrstu tvö árin sigraði Hjólakraftur áheitakeppnina og lagði þar með sitt lóð á þær vogarskálar. 

Hjólakraftur hefur stækkað ört frá stofnun og er nú fjöldi Hjólakraftshópa fyrir börn og unglinga starfræktir um allt land. „Söfnunin þýðir það að við getum haldið áfram að bera út fagnaðarerindið,“ sagði Þorvaldur þegar málefnið var tilkynnt. 

Alls söfnuðust 12.000.000 kr.

2015

Batamiðstöð á Kleppi

Árið 2015 var áheitum safnað til styrktar uppbyggingar Batamiðstöðvar á geðsviði Landsspítalans á Kleppi. Söfnunarfénu var varið til að byggja upp aðstöðu til hreyfingar á Kleppi og til að ráða íþróttafræðing til að leiða verkefnið. Rannsóknir hafa sýnt að hreyfing sem meðferðarúrræði getur haft áhrif á bata geðsjúkra. „Það er því til mikils að vinna ef hægt er að bjóða upp á líkamsþjálfun sem hluta af endurhæfingu og auka um leið lífsgæði," sagði María Einisdóttir framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala þegar tilkynnt var um söfnunina.

Þá vildu aðstendur WOW Cyclothon einnig leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn fordómum í garð geðsjúkra. 

Batamiðstöðin á Kleppi var opnuð með formlegri athöfn þann 22. desember 2015 sem tilraunaverkefni til þriggja ára. 

Alls söfnuðust 21.728.250 kr.

2014

Bæklunarskurðdeild LSH

Markmið áheitasöfnunar WOW Cyclothon 2014 var að safna 10 milljónum til styrktar tækjakaupum fyrir bæklunarskurðdeild Landsspítalans. 

Á bæklunarskurðdeild Landsspítalans hafði verið mikill skortur á tækjum og þörf á endurnýjun þeirra og hafði deildin til langs tíma orðið útundan þegar veittar voru gjafir eða styrkir. Safnað var fyrir færanlegur röntgentæki, svokölluðum C-boga. „C-bogi eða skyggnimagnari er eitt form af röntgentækjum sem er færanlegt, birtir mynd á skjá samtímis og er meðfærilegt. […] Það tæki sem við höfum nú fengið fyrir söfnunarpening WOW Cyclothon leysir af hólmi þrettán ára gamalt tæki. Á þeim tíma hafa orðið verulegar framfarir í flestu því sem lýtur að svona tæki, upplausn og gæði mynda hafa batnað verulega, geislamagn er mun minna og svo framvegis,“ sagði Jóhann Róbertsson, sérfræðingur í handarskurðlækningum á Landspítalanum við afhendingu tækisins þann 22. desember 2014. 

Þátttakendur í WOW Cyclothon bættu um betur þegar kom að söfnunarmarkmiðinu og söfnuðu rúmlega 15 milljónum þetta ár sem dugði fyrir kaupum á C-boganum og fleiri sérhæfðum verkfærum fyrir bæklunarskurðdeildina.

Alls söfnuðust 15.000.000 kr.

2012 og 2013

Barnaheill

Fyrstu tvö árin hjóluðu keppendur í WOW Cyclothon til styrktar Barnaheill – Save the Children á Íslandi. Í tengslum við söfnunina var efnt til átaksverkefnis um heilsu og hreyfingu barna. Áheitaverkefnið hjá Barnaheillum fékk heitið „Hreyfing og líkamlegt heilbrigði barna“ og snéri að því að efla vitund barna og foreldra um heilbrigt líf fyrir börn og mikilvægi reglulegrar hreyfingar. Aðalmarkmið verkefnisins var að auka vægi hreyfingar hjá íslenskum börnum og efla þannig bæði líkamlegt og andlegt heilbrigði sem og stuðla að almennum heilsufarslegum forvörnum. Með verkefninu „Hreyfing og líkamlegt heilbrigði barna“ voru börn hvött til þátttöku í hverskonar hreyfingu með reglulegum viðburðum þar sem mismunandi íþróttagreinar voru hafðar í hávegum.

Samhliða áheitasöfnuninni buðu Barnaheill og WOW air landsmönnum öllum að gefa gömul hjól. Hjólin sem gefin voru í söfnuninni voru lagfærð af sérfræðingum og þau sem of illa voru farin notuð í varahluti. Hjólunum var síðan deilt til barna í gegnum Mæðrastyrksnefnd. Fyrsta árið bárust yfir 500 hjól í söfnunina og það seinna yfir 650. 

Alls söfnuðust 4.200.000 kr árið 2013

Alls söfnuðust 3.000.000 kr árið 2012