WOW Cyclothon er stærsta götuhjólreiðakeppni á Íslandi og hefur hún verið haldin árlega frá 2012. Hjólað er hringinn í kringum Ísland með boðsveitarformi þar sem liðsfélagar skipta á milli sín kílómetrunum 1358. Einnig er í boði að hjóla í sóló-flokk en þá hjólar einn keppandi alla kílómetrana.

WOW Cyclothon er einstakur viðburður og tækifæri til að upplifa eitthvað alveg nýtt. WOW Cyclothon sameinar stórbrotna náttúru Íslands, keppni, samkennd, þrautseigju og liðsvinnu á ótrúlegan hátt.

Keppendur í WOW Cyclothon keppast ekki einungis við að verða fyrstir í mark heldur fer fram keppni í áheitasöfnun þeirra á milli þar sem liðin leitast við að ná sem flestum áheitum til styrktar því málefni sem keppnin styrkir hvert ár.

Flokkar

A flokkur

Í A-flokk skipa sér lið sem eru sett saman úr lágmarki tveimur og að hámarki fjórum hjólurum auk tveggja ökumanna. Ökumenn mega ekki hjóla fyrir liðið og hjólarar mega ekki aka þannig að hlutverk innan liðsins eru fyrirfram ákveðin.

Liðið verður að ferðast saman á einni bifreið en algengast er að notaðir séu húsbílar þar sem aðstaða er fyrir liðsmenn og -konur til að hafast við í á meðan keppni stendur. Athugið að sú bifreið sem notuð er verður að vera nægjanlega stór til þess að flytja alla liðsmenn á löglegan máta.

Keppt er í þremur undirflokkum A-flokks. Karla, kvenna eða blönduðum flokki. Ætli lið sér að keppa til verðlauna í einhverjum flokkanna þarf liðsskipan að uppfylla kröfur samkvæmt reglum keppninnar um samsetningu hjólara. Hægt verður að velja undirflokk fyrir liðið á heimasvæði liðsins þegar nær dregur keppni. Athugið, liðum er ekki raðað sjálfkrafa í undirflokka heldur fer liðið í almennan flokk þegar skráning er lögð inn og liðið ber sjálft ábyrgð á sinni skráningu.

A-flokkur er ræstur í hópstarti þar sem hjólað er í lögreglufylgd fyrstu kílómetrana þar til hraðinn er gefinn frjáls. Hjólarar í A-flokk mega nýta sér skjól hver af öðrum en ekki frá hjólurum í öðrum flokkum.

B flokkur

B-flokkur hefur verið stærsti flokkur WOW Cyclothon undanfarin ár en lið í flokknum eru samsett af 5-10 liðsmönnum/konum. Í B-flokki eru hlutverk ekki fyrirfram skilgreind sem þýðir að allir liðsmenn geta hjólað og keyrt í hvaða hlutföllum sem liðinu hugnast. 

Innifalin í skráningu er ein liðsbifreið en leyfilegt er samkvæmt reglum að ferðast á tveimur bifreiðum að undanskildum fyrstu og síðustu kílómetrum keppninnar. Þar má eingöngu vera með einn liðsbíl á ferðinni. Ætli lið sér að vera með tvo liðsbíla þarf að skrá seinni bílinn sérstaklega á skráningarsíðunni.

Keppt er í þremur undirflokkum B-flokks. Karla, kvenna eða blönduðum flokki. Ætli lið sér að keppa til verðlauna í einhverjum flokkanna þarf liðsskipan að uppfylla kröfur samkvæmt reglum keppninnar um samsetningu hjólara. Hægt verður að velja undirflokk fyrir liðið á heimasvæði liðsins þegar nær dregur keppni. Athugið, liðum er ekki raðað sjálfkrafa í undirflokka heldur fer liðið í almennan flokk þegar skráning er lögð inn og liðið ber sjálft ábyrgð á sinni skráningu.

B-flokkur er ræstur í hópstarti þar sem hjólað er í lögreglufylgd fyrstu kílómetrana þar til hraðinn er gefinn frjáls. Hjólarar í B-flokki mega nýta sér skjól hver af öðrum en ekki frá hjólurum í öðrum flokkum.

Einstaklingsflokkur

Í einstaklingsflokki hjólar sami hjólari alla kílómetra keppninnar. Þetta er eini flokkurinn þar sem ekki er hjólað í boðhjóli og ekki eru framkvæmdar skiptingar. Vinsamlegast kynnið ykkur vel reglurnar fyrir einstaklingsflokk en hjólurum í einstaklingsflokki er ekki leyfilegt að nýta skjól hver af öðrum. 

Hjólakraftur

Hjólakraftur er sér flokkur innan keppninnar sem hjólar árlega með fjölmörg lið. Hjólakraftur er félag sem heldur hjólreiðanámskeið fyrir ungt fólk á öllum aldri. Áhersla félagsins er á að virkja börn og unglinga sem ekki hafa fundið sig í öðrum íþróttum og skapa þeim sameiginlegan vettvang og félagsskap. Hafir þú áhuga á að kynna þér starf Hjólakrafts og/eða taka þátt í hringferð þeirra bendum við þér á að hafa samband við Þorvald Daníelsson, valdi@hjolakraftur.is.

Skiptingar

Lið sem keppa í A og B flokki geta skipt út hjólurum eins og hentar nema annað sé tekið fram eða aðrar takmarkanir í gildi.

Flest lið kjósa að hafa aðeins einn liðsmann í brautinni hverju sinni. En lið ráða hversu margir liðsmenn hjóla hverju sinni.

Liðum bera skylda á að skiptingar séu eins öruggar og mögulegt er, bæði gagnvart eigin liðsmönnum, öðrum keppendum og almennum vegfarendum.

Gæta þarf þess að skiptingar fari löglega fram, til að nýr hjólari teljist löglegur inni í brautinni þarf framdekk hans að ná fram fyrir framdekk annars hjólara í sama liði sem er þá þegar löglegur í brautinni.