2016

WOW Cyclothon styrkir Hjólakraft

Tæpar 12 milljónir söfnuðust í WOW Cyclothon til styrktar Hjólakrafti árið 2016. 

WOW Cyclothon er ekki einungis hjólreiðakeppni heldur er það líka viðamikil fjáröflun. Árið 2016 var safnað fyrir samtökin Hjólakraft og söfnuðust tæpar 12 milljónir króna. Samtökin voru stofnuð af Þorvaldi Daníelssyni til að hjálpa börnum og unglingum sem höfðu á einn eða annan hátt orðið undir í baráttunni við lífstílssjúkdóma og ekki fundið sig í hópíþróttum. Team Kvika stóðu sig best í áheitasöfnuninni og söfnuðu 756.500 krónum fyrir málefnið. Næstbest var lið Fjallabræðra með 554.000 krónur og í þriðja sæti í söfnuninni var lið Toyota með 492.000 krónur.


Um Hjólakraft - Frá vanvirkni til virkni

Samtökin Hjólakraftur voru stofnuð af Þorvaldi Daníelssyni til að hjálpa börnum og unglingum sem höfðu á einn eða annan hátt orðið undir í baráttunni við lífstílssjúkdóma og ekki fundið sig í hópíþróttum. „Hjólakraftur heldur námskeið fyrir börn og unglinga af öllum stærðum og gerðum á nokkrum stöðum á landinu. Það er gert í samstarfi við ólíka aðila, t.d. þátttakendur sjálfa, foreldra, sveitarfélög, skóla og fleiri. Tilgangurinn er sá að efla þátttakendur frá vanvirkni til virkni, þeim sjálfum og því samfélagi sem þeir koma úr til heilla,” segir Þorvaldur Daníelsson, forsprakki og framkvæmdastjóri Hjólakrafts.

„Á næstu árum mun Hjólakraftur fara á fleiri staði, í fleiri sveitarfélög, standa fyrir námskeiðum og hvetja til stofnunar Hjólakraftsklúbba um allt land. Metnaður Hjólakrafts liggur í að mæta með stöðugt fleiri lið í hjólakeppnir, bæði í minni keppnir og svo í WOW Cyclothon og sigra áheitakeppnina þar í hvert sinn. Það er markmið sem næst með því að leggja rækt við samstarfið við þátttakendur, foreldra, sveitarfélögin og aðra aðila sem koma að þessu verkefni. Innan tveggja ára vil ég gjarnan að Hjólakraftur verði kominn með starfsemi í að minnsta kosti 10 sveitarfélögum,“ bætir Þorvaldur við.

Hjólakraftur hefur náð þeirri stöðu að komast í hóp valgreina inn í stundatöflu í unglingadeildum grunnskólanna í Grindavík og í Árborg. Sömuleiðis hefur opinn hópur sem er starfræktur í Reykjavík fyrir börn og unglinga af höfuðborgarsvæðinu stækkað talsvert á milli ára. Þá er starfræktur hópur í Gufunesbæ, annar er í samstarfi sveitarfélaganna Sandgerðis og Garðs og einnig er stækkandi hópur í Norðlingaskóla í Reykjavík. Hópur ungmenna á Austurlandi hittist nú einnig á æfingum sem Hjólakraftur og Ungmennafélagið Þristurinn standa að í sameiningu. Sá hópur er á Héraði og æfingar eru gerðar út frá Egilsstöðum.

„Stefnan er að byggja upp Hjólakraftshópa um allt land með það fyrir augum að hjálpa börnum og unglingum, og mögulega í leiðinni einhverjum fullorðnum, frá vanvirkni til virkni. Það er hið stóra markmið Hjólakrafts” segir Þorvaldur.

Að endingu segir Þorvaldur það ekki vera auðvelt að halda þessari starfsemi gangandi allt árið, til þess þurfi talsverða fjármuni og búnað. „Það er algjörlega ómetanlegt að WOW Cyclothon skuli hafa valið okkur sem þann aðila sem fær að njóta góðs af áheitasöfnuninni árið 2016. Það er þvílíkur heiður, og það sem meira er, það gerir okkur það hreinlega mögulegt að halda áfram með þetta skemmtilega og þarfa verkefni sem er að vekja athygli mjög víða, jafnvel erlendis,“ segir Þorvaldur að lokum.